Færsluflokkur: Bloggar
28.2.2009 | 23:12
Eru niðustöðurnar fullkomlega rétt skildar?
Ekki er ég hrifinn af löngum vinnudögum fyrir sjálfan mig eða aðra en ég er ekki viss um að staðhæfingin í fréttinni um að mikil yfirvinna geti haft slæm áhrif á andlegt heilsufar sé rétt ályktun út frá niðurstöðum rannsóknarinnar.
Samkvæmt því sem stendur í frétt mbl voru menn spurðir hve langan vinnudag þeir ynnu og svo tóku þeir nokkur próf. Samkvæmt þessu getur vel verið að þeir sem eiga við þunglyndi að stríða og fýsir meira í áfengi en aðrir séu 'vinnualkar' út af einhverri annarri ástæðu. Það fer oft saman að fólki sem líður illa leiti í mismunandi deyfingar eins og áfengi og of mikla vinnu. Hvort það er svo áfengið, svefnleysið eða yfirvinnan sem framkallar kvilla eins og minnisleysi er þá opin spurning.
Fréttamönnum hættir æði oft til að gera þessa rökfræðilegu ályktunarvillu:
Rannsókn leiðir í ljós að: Ef A er til staðar þá er B oft til staðar. Ályktun: B er orsök A.
Þessi rökleiðsla er alls ekki rétt, því það gæti verið að A sé orsök B eða að A og B séu orsök (einhvers mögulega miklu flóknara fyrirbæris) C sem ekki var hugsað um í rannsókninni.
Í dæminu okkar getur A verið 'mikil yfirvinna', B verið 'meiri áfengisneysla' og C gæti t.d. verið 'óhamingja'.
Ég hafði ekki nennu til að leita uppi þessa rannsókn en ofangreint á alveg rétt á sér því að það eru oft fréttamennirnir sem byrja misskilninginn. Einfaldar túlkanir almúgans gerir skilninginn á vísindalegum niðustöðum oft ekki betri í frammhaldinu.
Langir vinnudagar geta haft slæm áhrif á andlegt heilsufar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.1.2009 | 22:44
Til málsvarnar lögreglu
Ég verð að játa það að ég er gjörsamlega sleginn yfir því hvernig fólk veltir sér upp úr því hvernig lögreglan tekur á mótmælendum. Hefur málstaðurinn færst frá því að krefjast breytinga á stjórnarháttum yfir í að krefjast þess að skyrblautir, lemstraðir, grjótbarðir, heyrnardaufir, svívirtir og annars-manns-hlandblautir lögreglumenn hegði sér eins og herramenn? Ofan á áðurgreinda niðurlægingu lögreglumannanna bætist það að þurfa að horfa á fólk brjóta lög beint fyrir framan nefið á sér án þess að fá neitt gert og að þurfa að vera miðpunktur flugeldasýningar þeirra sem henda kínverjum í þá.
Það kemur mér ekki á óvart að ljósmyndarar eða aðrir saklausir verði fyrir piparúða eða táragasi þegar lögreglan neyðist til að svara fyrir sig. Það er einfaldlega hættulegt að vera nálægt lögreglunni þegar henni er ógnað því ómögulegt er að hafa stjórn á atburðarrásinni þegar fullorðið fólk á í líkamlegum átökum.
Þegar allt virðist á hreyfingu í myrkrinu og skildir og hjálmar byrgja þeim sýn hljóta brigðulir lögreglumenn að gera mistök eins og við hin. Frá eigin reynslu veit ég að svívirðingar draga fram það versta í mér. Ég get ekki ímyndað mér hvernig mér myndi líða eða hvernig ég myndi hegða mér ef ég blandaði því í kokteil með ofbeldi og dash af niðurlægingu. Því segi ég: ljósmyndarar færið ykkur fjær mönnunum sem reyna að miða með hjálm á hausnum yfir skildina sem eru á hreyfingu eins og allt annað.
Að lokum: Eru lögreglumenn ekki launa lægstir? Þurfa þeir ekki að líða skort eins og við hin út af klúðri ríkisstjórnar þeirra og okkar? Deilan snýst ekki um hegðun lögreglumanna heldur um afglöp yfirvalda.
Munu hafa uppi á ofbeldismönnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.3.2008 | 22:17
Dalai Lama stóð ekki fyrir uppreisn
Auðvelt er að skilja frétt Morgunblaðsins sem svo að Dalai Lama hafi staðið fyrir uppreisn gegn Kínverjum 1959, sbr:
"...Dharamshala á Indlandi. Þar hefur hann búið frá því hann flýði land eftir misheppnaða uppreisn gegn Kínverjum árið 1959. "
Dalai Lama hefði varla fengið friðarverðlaun Nóbels ef hann hefði hvatt landa sína til uppreisnar. Ég geri mér grein fyrir að ekki þurfi nauðsynlega að skilja efnisgreinina hér að ofan þannig að Dalai Lama hafi hvatt til uppreisnar.
Hvað sem því líður:
Hið rétta er að Kínverjar, sem höfðu hertekið Tíbet 1950, buðu Dalai Lama á leikrit í kínverskum herbúðum í mars 1959 og kröfðust þess að lífverðir hans fengju ekki að fylgja honum þangað. Fréttir af þessu boði bárust til Tíbeta sem vöktu ótta þeirra um að til stæði að ræna Dalai Lama. Tíbetar tóku að umkringja höll Dalai Lama til að koma í veg fyrir að hann gæti þegið boð Kínverja. Það var svo í þessari 300.000 manna mannmergð sem raddir um sjálfstæði Tíbet fóru að heyrast.
Um 86.000 Tíbetar létust í átökum við Kínverska herinn en Dalai Lama náði að flýja land í glundroðanum.
Þess má geta að Kínverjar hafa rænt manni sem telst heilagur í augum Tíbeta. Panchen Lama varð árið 1995 yngsti pólitíski fangi á sínu sjöunda aldursári. Kínverjar settu hann í stofufangelsi strax í kjölfar þess að Dalai Lama gaf honum titilinn Panchem lama. Fáir vita hvar hann er í dag ef hann er þá á lífi.
Dalai Lama segir menningarlegt þjóðarmorð framið í Tíbet | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)